Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 650. máls.

Þskj. 1152  —  650. mál.



Frumvarp til safnalaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI

Tilgangur, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Tilgangur.

    Í lögum þessum er kveðið á um skipulag safnastarfs í þeim tilgangi að efla starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til safna í eigu ríkisins og til annarra safna sem eru viðurkennd samkvæmt lögum þessum.
    Lög þessi taka ekki til bóka- og skjalasafna.

3. gr.
Hlutverk safna.

    Söfn í skilningi laga þessara eru varanlegar stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Þau skulu vera opin almenningi.
    Með söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum, sýningum og annarri miðlun er það hlutverk safna að tryggja menningar- og náttúruarf Íslands, varpa ljósi á menningar-, náttúru- og listasögu landsins, styrkja safnkost og heimildasöfnun innan síns sérsviðs og gera safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum. Í starfi sínu skulu söfn hafa að leiðarljósi að auka lífsgæði manna með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.
    Söfn skulu stunda markvissa söfnun muna og heimilda til að safnkostur þeirra gefi sem heildstæðasta mynd af sérsviði þeirra.

4. gr.
Höfuðsöfn, viðurkennd söfn og ábyrgðarsöfn.

    Höfuðsöfn eru í eigu ríkisins og eru miðstöðvar safnastarfsemi hvert á sínu sviði. Þau eru stofnuð með lögum þar sem nánar er kveðið á um starfsemi þeirra.
    Viðurkennt safn er safn sem ráðherra hefur veitt viðurkenningu að fenginni tillögu safnaráðs. Slíkt safn hefur tiltekið starfssvið eða starfssvæði sem er tilgreint í stofnskjali þess.
    Ábyrgðarsafn er viðurkennt safn sem ráðherra hefur, að fenginni tillögu viðkomandi höfuðsafns, falið að bera ábyrgð á ákveðnum þáttum safnastarfs á tilteknu sviði eða landsvæði.

5. gr.
Safnvísar, setur og sýningar.

    Safnvísar, setur og sýningar teljast ekki til safna í skilningi 3. gr. laga þessara.
    Safnvísar starfa að nokkru leyti sem söfn en uppfylla ekki öll skilyrði sem söfn þurfa að uppfylla, m.a. með tilliti til hlutverks, umfangs starfsemi og safnkosts.
    Setur sinna að jafnaði rannsóknum og miðlun en ekki söfnun og varðveislu.
    Sýningar eru sjálfstæðar rekstrareiningar sem sinna miðlun en ekki söfnun, varðveislu og rannsóknum.

II. KAFLI
Skipulag.
6. gr.
Yfirstjórn og framkvæmd.

    Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi ná til.
    Safnaráð er ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni safna.

7. gr.
Safnaráð.

    Ráðherra skipar safnaráð til fjögurra ára í senn. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn fulltrúa, Félag íslenskra safna og safnmanna einn fulltrúa og Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) einn fulltrúa. Ráðherra skipar tvo fulltrúa án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í safnaráð lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Safnaráð hefur eftirfarandi hlutverk:
     a.      að hafa eftirlit með safnastarfsemi í landinu,
     b.      að vinna að stefnumörkun um safnastarf í samvinnu við höfuðsöfn sem send er ráðherra til samþykktar,
     c.      að fjalla um stofnskrár eða samþykktir safna og staðfesta þær,
     d.      að fjalla um viðurkenningu safna og afturköllun viðurkenningar áður en tillögur þar að lútandi eru sendar ráðherra,
     e.      að setja skilmála um húsnæði safna, þar á meðal staðla um aðgengi og öryggismál þeirra,
     f.      að setja skilmála um skráningarkerfi safna og viðurkenningu á þeim,
     g.      að veita viðkomandi höfuðsafni umsögn um erindi er varða ráðstöfun eða förgun safngripa,
     h.      að leggja mat á þörf fagsviðs eða landsvæðis fyrir sérstakt ábyrgðarsafn og fjalla um tillögu þar að lútandi áður en höfuðsafn sendir hana ráðherra,
     i.      að setja safnasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir,
     j.      að veita umsögn um styrkumsóknir úr safnasjóði,
     k.      að sinna öðrum verkefnum á sviði safnamála samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
    Forstöðumenn höfuðsafna sitja fundi safnaráðs stöðu sinnar vegna.
    Ráðherra ákveður aðsetur safnaráðs.
    Kostnaður af starfsemi safnaráðs greiðist úr safnasjóði.

8. gr.
Höfuðsöfn.

    Höfuðsöfn eru þrjú: Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Þau eru öðrum söfnum til ráðgjafar og skulu stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu hvert á sínu sviði.
    Höfuðsöfn skulu hafa forustu í málefnum safna á sínu sviði, stuðla að eflingu og samræmi í safnastarfi og leiða faglegt samstarf safna og annarra aðila. Höfuðsöfn skulu leitast við að efla og auka þekkingu og færni starfsfólks safna.
    Höfuðsöfn skulu annast kynningu á sérsviði sínu innan lands og utan.
    Safnkostur höfuðsafna skal vera undirstaða fræðslu- og sýningarstarfs þeirra. Hann skal jafnframt vera aðgengilegur til rannsókna.
    Höfuðsöfn mega ekki taka við gjöfum sem kvaðir fylgja. Ráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstök rök mæla með því.

III. KAFLI
Viðurkennd söfn.
9. gr.
Viðurkenning.

    Ráðherra veitir safni viðurkenningu að fenginni tillögu safnaráðs. Öll söfn nema höfuðsöfn þurfa að sækja um viðurkenningu vilji þau falla undir ákvæði laga þessara. Umsókn um viðurkenningu safns skal beint til safnaráðs. Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um starfssvið, rekstrarform, eignarhald, fjármögnun og árlegan rekstrarkostnað ásamt stofnskrá eða samþykkt safnsins og önnur þau skilyrði viðurkenningar sem tilgreind eru í 10. gr.
    Ráðherra getur afturkallað viðurkenningu safns að fenginni tillögu safnaráðs telji ráðið að safnið uppfylli ekki lengur skilyrði viðurkenningar.
    Viðurkennt safn á rétt á að nota ákveðið einkennismerki, sem safnaráð hefur látið útbúa. Safni sem svipt hefur verið viðurkenningu er óheimilt að nota einkennismerki viðurkenndra safna.
    Viðurkennt safn getur sótt um styrk úr safnasjóði.

10. gr.
Skilyrði viðurkenningar.

    Safn skal uppfylla eftirfarandi skilyrði til að öðlast viðurkenningu:
     1.      Safn skal vera í eigu opinberra aðila, sjálfseignarstofnunar, félags eða fyrirtækis sem tryggir safninu fjárhagsgrundvöll fyrir eðlilega starfsemi þess og skipar því stjórn. Safn skal ekki rekið í hagnaðarskyni.
     2.      Safn skal hafa sjálfstæðan fjárhag, aðskilinn frá öðrum rekstri eiganda. Reikningar safns skulu vera áritaðir af löggiltum endurskoðanda. Það skal árlega senda skýrslu um starfsemi sína og fjárhagslegt uppgjör til safnaráðs.
     3.      Safn skal starfa eftir stofnskrá eða samþykkt sem safnaráð hefur staðfest, sbr. 7. gr. Í stofnskrá eða samþykkt skal tilgreina viðfangsefni og starfssvæði safnsins. Stofnskrá eða samþykkt viðurkennds safns skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.
     4.      Safn skal starfa í samræmi við skilmála safnaráðs um húsnæði, öryggismál, skráningarkerfi og faglega starfsemi. Upplýsingar um skráða gripi í varðveislu safns skulu vera aðgengilegar almenningi.
     5.      Safn skal veita skólanemendum sem heimsækja safnið vegna náms aðgang án gjaldtöku.
     6.      Aðgengi að húsnæði safns skal vera í samræmi við lög og reglugerðir og eins mikið tillit tekið til þarfa fólks með fötlun og kostur er.
     7.      Safn skal starfa í samræmi við siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) og ákvæði laga.
     8.      Forstöðumaður safns skal hafa menntun á ábyrgðarsviði safnsins eða hafa aflað sér hliðstæðrar hæfni á annan hátt.

11. gr.
Stofnstyrkir.

    Heimilt er að veita viðurkenndu safni styrk úr ríkissjóði til að mæta stofnkostnaði. Til að styrkur komi til álita skal fylgja skilmálum er safnaráð setur um húsnæði safna. Þeir skilmálar skulu m.a. kveða á um öryggi og varðveislu safngripa.
    Framlagið skal innt af hendi samkvæmt sérstökum samningi og greiðsluáætlun sem stjórnendur safnsins gera við ráðuneyti áður en framkvæmdir hefjast eða kaupsamningur er gerður. Sé þessum formlegu kröfum ekki fylgt á safnið ekki kost á stofnstyrk úr ríkissjóði í samræmi við ákvæði greinarinnar.
    Fyrir undirritun samnings um framlag ríkisins samkvæmt þessari grein skal viðkomandi safn leggja fram staðfestingu á því að annar stofnkostnaður sé tryggður.
    Fjárveitingar til stofnstyrkja samkvæmt þessari grein eru háðar ákvörðun Alþingis um framlög í fjárlögum.

12. gr.
Lok starfsemi og ráðstöfun eigna og safnkosts.

    Í stofnskrá eða samþykkt viðurkennds safns skal kveðið á um ráðstöfun eigna þess og safnkosts verði safnið lagt niður eða rekstrarformi þess breytt. Hafi viðurkennt safn notið opinberra styrkja skv. 11. eða 22. gr. skal safnkosti þess ráðstafað í samræmi við fyrirmæli stofnskrár eða samþykkta og í samráði við viðkomandi höfuðsafn. Öðrum eigum skal ráðstafað að höfðu samráði við ráðuneyti.

IV. KAFLI
Ábyrgðarsöfn.
13. gr.
Skilgreining og hlutverk.

    Ráðherra getur, að fenginni tillögu viðkomandi höfuðsafns, falið viðurkenndu safni að bera faglega ábyrgð á ákveðnum þáttum safnastarfs. Ábyrgð safnsins getur náð til afmarkaðs sviðs eða tiltekins landsvæðis.
    Ábyrgðarsafn skal starfa í nánu samráði við höfuðsafn á viðkomandi safnasviði.
    Ábyrgðarsafn skal veita öðrum söfnum, safnvísum, setrum og sýningum á sínu sviði eða landsvæði ráðgjöf og leiðbeiningar eftir því sem kostur er.
    Forstöðumaður ábyrgðarsafns skal vera í fullu starfi og hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á sviði safnsins eða hafa aflað sér hliðstæðrar hæfni á annan hátt. Safnið skal að auki hafa hið minnsta einn starfsmann með menntun eða staðgóða þekkingu og reynslu á ábyrgðarsviði safnsins.
    Nánar skal kveðið á um verkefni, ábyrgðarsvið og fjárveitingar í tímabundnum samningi milli ráðuneytis, hlutaðeigandi safns og viðkomandi höfuðsafns.

V. KAFLI
Viðurkennd söfn og starfsemi þeirra.
14. gr.
Starfsemi.

    Söfn samkvæmt lögum þessum eru með fastan rekstur og eru rekin til að þjóna íslensku samfélagi. Þau eru opin almenningi og safna, varðveita, rannsaka og miðla því sem er til vitnis um manninn, sögu hans og menningu, náttúru og umhverfi í nafni samfélagsins og til framgangs þess. Þau skulu hafa að leiðarljósi að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.
    Söfn skulu leitast við að efla faglegt starf á sínu sviði og standast lágmarkskröfur um söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknir og miðlun. Þau skulu skila stefnumörkun um starfsemi sína til viðeigandi höfuðsafns á fjögurra ára fresti.
    Söfn skulu taka þátt í faglegu samstarfi svæðisbundið, á landsvísu og á alþjóðavettvangi eftir því sem við verður komið.

15. gr.
Lán safngripa.

    Söfnum er heimilt að lána tímabundið gripi eða verk til annarra safna eða stofnana, á sýningar eða til rannsókna. Um lán safngripa til annarra landa fer eftir ákvæðum XI. kafla laga um menningarminjar þar sem þau eiga við. Höfundur á alltaf rétt á að fá verk sín lánuð á eigin sýningar.
    Tryggilega skal gengið frá varðveislu safngripa sem eru lánaðir og þeir tryggðir eftir því sem forstöðumaður viðkomandi safns ákveður.

16. gr.
Ráðstöfun safngripa.

    Hafi viðurkennt safn notið opinberra styrkja skv. 11. eða 22. gr. skal safnkosti þess ráðstafað í samræmi við fyrirmæli stofnskrár eða samþykkta og í samráði við viðkomandi höfuðsafn.
    Muni sem viðurkennt safn hefur eignast með gjöf eða arfleiðslu eða eru keyptir fyrir almannafé er óheimilt að taka af safnskrá.

17. gr.
Förgun safngripa.

    Óheimilt er að farga safngripum nema ríkar ástæður séu til. Heimilt er að grisja safnkost á grundvelli grisjunaráætlunar sem höfuðsafn ákveður.
    Það höfuðsafn sem í hlut á tekur ákvörðun um förgun safngripa að fenginni umsögn safnaráðs.

18. gr.
Notkun mynda af safngripum.

    Ekki má nota myndir af gripum eða verkum safna sem vörumerki eða í auglýsingaskyni og ekki heldur gera af þeim myndir eða eftirlíkingar nema með leyfi viðkomandi forstöðumanns, enda sé gætt réttar rétthafa samkvæmt höfundalögum.

19. gr.
Gjaldtökuheimild.

    Söfnum í eigu ríkisins er heimilt að taka aðgangseyri. Þá er þeim heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sína, svo sem lán á munum, ljósmyndun muna, afrit af ljósmyndum, sérunnar munaskrár og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu, fjölföldun og hvers konar aðra þjónustu til að standa straum af kostnaði. Söfnin setja gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku.
    Ákvörðun um aðgangseyri og aðra gjaldtöku annarra safna er í höndum eigenda þeirra.

20. gr.
Gjafir og fjárframlög.

    Um frádrátt af tekjuskatti vegna gjafa eða fjárframlaga til safna fer samkvæmt lögum um tekjuskatt.

VI. KAFLI
Safnasjóður.
21. gr.
Hlutverk og skipulag.

    Hlutverk safnasjóðs er að efla starfsemi safna sem undir lög þessi falla. Í þeim tilgangi getur sjóðurinn styrkt rekstur og skilgreind verkefni viðurkenndra safna, samstarfsverkefni slíkra safna innbyrðis og önnur verkefni. Sjóðnum er heimilt að styrkja aðra starfsemi til að efla faglegt safnastarf, m.a. rannsóknir á starfssviði sjóðsins og miðlun upplýsinga um þær.
    Safnasjóði er heimilt að verja allt að 40% af ráðstöfunarfé sínu í styrki til að efla rekstur viðurkenndra safna.
    Tekjur safnasjóðs eru:
     a.      framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
     b.      önnur framlög.

22. gr.
Styrkveitingar.

    Styrkir úr safnasjóði eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins, sbr. i-lið 2. mgr. 7. gr.
    Viðurkennd söfn önnur en söfn í eigu ríkisins geta sótt um rekstrarstyrki til sjóðsins til að efla starfsemi sína.
    Öll viðurkennd söfn geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna.
    Önnur söfn, safnvísar, setur og sýningar geta notið styrks úr safnasjóði til skilgreindra verkefna í samstarfi við viðurkennd söfn. Skal hið viðurkennda safn vera aðalumsækjandi og ábyrgðaraðili verkefnisins. Höfuðsöfn og önnur söfn sem eru rekin af ríkinu geta átt aðild að slíkum verkefnum.
    Safnasjóður getur veitt styrki til alþjóðlegra verkefna sem viðurkennd söfn eru þátttakendur í.
    Heimilt er að krefjast endurgreiðslu hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og þau gögn sem styrkveiting var byggð á, hafi verkefnið ekki verið unnið samkvæmt skilmálum sjóðsins eða lokaskýrslu ekki verið skilað innan árs frá áætluðum lokum verkefnis.
    Ráðherra úthlutar styrkjum úr safnasjóði að fengnum tillögum safnaráðs.

VII. KAFLI
Almenn ákvæði.
23. gr.
Setning reglugerða.

    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd II., III., V. og VI. kafla laga þessara.

24. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2012. Frá þeim degi falla úr gildi safnalög, nr. 106/2001.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Fram til 1. janúar 2012 er ráðherra heimilt að undirbúa gildistöku laga þessara.
    Umboð safnaráðs sem skipað er samkvæmt gildandi lögum fellur niður við gildistöku laga þessara.
    Viðurkenning safna í samræmi við ákvæði eldri laga heldur gildi sínu í eitt ár frá gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með setningu safnalaga, nr. 106/2001, var gerð umfangsmikil breyting á lagaramma um íslensk söfn og starfsemi þeirra færð í fastari skorður. Stofnun safnaráðs var nýmæli í þeim lögum og hefur ráðið unnið ötullega að eflingu safnastarfs í landinu. Með tilkomu safnasjóðs og úthlutun styrkja á faglegum forsendum hefur rekstur safna að vissu leyti orðið tryggari en áður. Í frumvarpinu er byggt á þessum grunni og stefnt að því að faglegur rammi laganna um starfsemi safna verði skýr, leitast við að tryggja að fjárveitingar ríkisins til málaflokksins stuðli að öflugu safnastarfi og að aðgengi almennings að þeim menningar- og náttúruarfi sem varðveittur er á söfnum verði sem best.
    Reynslan sýnir að ýmsa þætti safnalaga megi skilgreina betur. Á síðustu árum hafa orðið margvíslegar breytingar á starfsemi safna og sýningaraðila, m.a. með fjölgun safnvísa og svonefndra setra sem sinna ákveðnum þáttum safnastarfsemi, sem vert er að taka tillit til við endurskoðun laganna.
    Við endurskoðun laganna var ákveðið að halda þeirri stefnu sem mörkuð var árið 2001, þ.e. að halda málefnum bóka- og skjalasafna utan við þetta frumvarp. Jafnframt var ákveðið að fjalla mun ítarlegar um starfsemi safna en gert er í gildandi safnalögum. Söfnum hefur fjölgað um land allt á síðustu árum og einnig hefur sprottið upp fjöldi safnvísa, setra og sýninga sem ekki uppfylla öll skilyrði þess að teljast söfn, en vinna mörg hver gott starf á sínu sviði. Þessi starfsemi er nú skilgreind í fyrsta sinn í þessu frumvarpi og reynt að skoða hana í samhengi við starfsemi viðurkenndra safna. Hingað til hefur ekki verið skýrt hvað átt hefur verið við með framangreindum heitum og möguleikar þessara ólíku aðila til að njóta opinbers stuðnings við starfsemi sína hafa ekki verið fyrir hendi í gildandi safnalögum. Þetta hefur m.a. leitt til aukinna beinna fjárveitinga á fjárlögum til starfsemi á þessu sviði. Í frumvarpinu er því lagt til að þessum aðilum verði gert kleift að njóta stuðnings úr safnasjóði til skilgreindra verkefna í samstarfi við viðurkennd söfn.
    Meðal nýmæla í frumvarpinu eru ákvæði um viðurkenningu safna, þar sem slíkum söfnum er ætlað að gangast undir ýmis fagleg og rekstrarleg skilyrði, sem m.a. byggja á ákvæðum danskra laga. Með opinberri viðurkenningu eru tekin af öll tvímæli um stöðu viðkomandi safna, skyldur þeirra og samfélagslega ábyrgð. Jafnframt eru skilgreind skilyrði sem söfnin þurfa að uppfylla til að geta átt kost á að njóta styrkja úr opinberum sjóðum. Söfn gegna mikilvægu hlutverki í varðveislu menningar- og náttúruarfs landsins sem og almennings fræðslu á því sviði. Því er talið rétt að ríkið taki á sig ákveðna ábyrgð við að styrkja rekstur þessara stofnana í samstarfi við eigendur þeirra, uppfylli þær ákveðin skilyrði um starfsemi og rekstur. Meðal þeirra skilyrða sem sett eru til að safn geti hlotið viðurkenningu er að höfuðsafn á starfssviði viðkomandi safns komi að ákvörðunum um ráðstöfun safnkosts verði það lagt niður.
    Annað nýmæli í frumvarpinu er hugtakið ábyrgðarsafn. Til að styrkja faglegt samstarf safna gerir frumvarpið mögulegt að skilgreina öflug söfn sem hafi frumkvæði í málefnum safna á sínu ábyrgðarsviði eða ábyrgðarsvið og veiti öðrum, bæði söfnum, safnvísum, setrum og sýningum, ráðgjöf og aðstoð í nánu samráði við höfuðsöfn, t.d. með því að stýra samstarfs verkefnum. Starfsemi Ábyrgðarsafn getur náð til tiltekins landsvæðis eða til afmarkaðs sviðs á landsvísu. Skulu slík söfn vera í nánu samstarfi við höfuðsafni, en þeim er falið að gera tillögur um hvort ástæða sé til að fela einhverju safni aukna ábyrgð á safnastarfi í tilteknum landshluta eða á ákveðnu sviði og hvaða söfn geta tekið að sér slíkt hlutverk.
    Ákvæði um safnaráð, skipan þess og hlutverk hafa verið skýrð og skipan ráðsins færð að nokkru til samræmis við skipan fornminja nefndar og húsafriðunarnefndar samkvæmt frumvarpi til laga um menningarminjar. Tilgangurinn er að auka gagnsæi og skýra hlutverk ráðsins betur en gert er í gildandi safnalögum. Breytingarnar fela m.a. í sér að safnaráð er nú fyrst og fremst ráðgefandi nefnd gagnvart ráðherra en skal jafnframt hafa eftirlit með safnastarfsemi í landinu. Skerpt er á stefnumótandi hlutverki þess og hlutverk þess í viðurkenningarferli safna er skilgreint. Þá er ráðinu ætlað að setja skilmála og staðla um húsnæði safna auk skilmála um skráningarkerfi. Ráðinu er einnig ætlað að fjalla um tillögur um ábyrgðarsöfn áður en höfuðsöfn senda slíkar tillögur til ráðherra. Safnaráði er áfram ætlað að setja safnasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir og veita umsögn til ráðherra um styrkumsóknir úr sjóðnum. Skv. 10. gr. gildandi laga er safnaráði falið það hlutverk að úthluta úr safnasjóði en hér er sú breyting gerð að ráðherra tekur ákvörðun um úthlutun úr sjóðnum. Með því að ráðið setji sjóðnum úthlutunarreglur getur það tryggt að staðið sé að úthlutun styrkja úr sjóðnum á faglegan hátt og í samræmi við stefnumótun þess um safnastarf.
    Safnaráði er samkvæmt frumvarpinu ekki lengur ætlað að vera samráðsvettvangur um málefni safna, enda má ætla að slíkt samráð sé eðlilegur hluti af safnastarfi og samvinnu safna undir forustu höfuðsafna og þurfi ekki að binda í lög.
    Í greinargerð með frumvarpi til núgildandi safnalaga segir að safnaráð sé nefnd, en ekki stofnun, sem hefur afmörkuð verkefni. Í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir breytingum á þessari sýn, en ætla má að þær breytingar sem felast í frumvarpinu hafi í för með sér nokkurn sparnað í rekstri safnaráðs.
    Við endurskoðun laganna var litið til reynslu af framkvæmd núgildandi laga en einnig höfð hliðsjón af nýlegri löggjöf ýmissa annarra landa á þessu sviði, einkum Danmerkur, Finnlands og Kanada auk Austurríkis og Frakklands. Einnig var tekið tillit til siðareglna Alþjóðaráðs safna (ICOM) og ýmissa alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.
    Í skýrslu sinni til Alþingis, Íslensk muna- og minjasöfn: Meðferð og nýting á ríkisfé (maí 2009) benti Ríkisendurskoðun m.a. á að þrátt fyrir gildandi safnalög væri opinberu fé enn veitt til safna og skyldrar starfsemi án faglegrar umfjöllunar. Ríkisendurskoðun setti fram alls níu ábendingar til Alþingis um hvernig mætti takast á við þennan vanda. Þær ábendingar lúta m.a. að auknu forræði mennta- og menningarmálaráðuneytis í safnamálum, að því að einfalda þurfi styrkjakerfi safna, setja fastmótaðar reglur um styrkveitingar og að auka þurfi eftirlit með styrkjum og samræma það. Segja má að ákvæði þessa frumvarps komi til móts við margar af fyrrgreindum ábendingum, en sumar þeirra kalla á ráðstafanir sem liggja utan ramma safnalaga.
    Þetta frumvarp var undirbúið samhliða frumvörpum til laga um menningarminjar, um Þjóðminjasafn Íslands og um skil menningarverðmæta til annarra landa og fjallað er um sameiginlega þætti og undirbúning þeirra, kynningu og samráð í inngangi greinargerðar frumvarps til laga um menningarminjar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Frumvarpinu er ætlað að efla starfsemi safna í því augnamiði að tryggja varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, og stuðla að aukinni þekkingu og skilningi á þessari arfleifð og tengslum hennar við umheiminn með því að veita fólki aðgang að henni. Greinin þarf ekki sérstakra skýringa við.

Um 2. gr.

    Við það er miðað að ákvæði frumvarpsins taki til safna í eigu ríkisins og til safna í eigu annarra aðila sem ráðherra hefur viðurkennt í samræmi við ákvæði III. kafla frumvarpsins. Gildissvið safnalaga, nr. 106/2001, takmarkast skv. 1. gr. við lista- og minjasöfn en talin er ástæða til að opna fyrir aðrar mögulegar tegundir safna, svo sem vísindasöfn.
    Lögin taka ekki til bóka- og skjalasafna enda gilda um þau ákvæði annarra laga.

Um 3. gr.

    Í greininni er hugtakið safn skilgreint, þ.e. að það sé varanleg stofnun sem starfi í þágu almennings og það sé ekki rekið í hagnaðarskyni. Er þar m.a. byggt á þeirri skilgreiningu sem fram kemur í siðareglum Alþjóðaráðs safna (ICOM) og í 4. gr. gildandi safnalaga. Það er nýmæli að það skuli sérstaklega tekið fram að söfn starfi í þágu almennings og að þau skuli ekki rekin í hagnaðarskyni. Ekki þykir ástæða til að skilgreina flokka safna sérstaklega, sbr. 1. mgr. 2. gr. safnalaga, nr. 106/2001, þar sem öll söfn skulu starfa eftir sömu meginreglum, eins og m.a. kemur fram í siðareglum ICOM.
    Í 2. mgr. segir að söfnun, skráning, varðveisla, rannsóknir, sýningar og önnur miðlun safna sé undirstaða þess hlutverks þeirra að tryggja menningar- og náttúruarf Íslands, að varpa ljósi á menningar-, náttúru- og listasögu landsins, að styrkja safnkost og heimildasöfnun innan síns sérsviðs og gera safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum til að auka lífsgæði og ánægju manna.
    Slík fagleg vinna með safnkostinn sker úr um hvort stofnun sé safn samkvæmt skilningi frumvarpsins eða ekki. Nafngift ein og sér segir því ekki til um hvort viðkomandi eining falli undir þessi lög. Oft hefur valdið misskilningi að í íslensku máli er sama orð, þ.e. safn, notað um það sem nefnist á ensku museum, collection og exhibition eða á dönsku museum, samling og udstilling.

Um 4. gr.

    Í greininni er fjallað um hvað felst í hugtökunum höfuðsafn, viðurkennt safn og ábyrgðarsafn. Í 1. mgr. er höfuðsafn skilgreint og sagt að kveða skuli nánar á um starfsemi þeirra í sérlögum. Þetta ákvæði byggist að hluta á 1. mgr. 5. gr. safnalaga, nr. 106/2001. Höfuðsöfn eru tilgreind í 8. gr. frumvarpsins, en samkvæmt gildandi lögum eru þau Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands.
    Í 2. mgr. er hugtakið viðurkennt safn skilgreint. Með þessu ákvæði er gert ráð fyrir að söfn þurfi að fá viðurkenningu ráðherra sem opinbera staðfestingu á að skipulag og starfsemi þeirra fullnægi faglegum gæðakröfum. Þetta er nýmæli. Nánar er fjallað um skilyrði viðurkenningar safna í 10. gr.
    Í 3. mgr. felst einnig nýmæli. Þar segir að ráðherra geti falið viðurkenndu safni að bera ábyrgð á ákveðnum þáttum safnastarfs. Skv. 7. gr. leggur safnaráð faglegt mat á þörf fagsviða eða landsvæða fyrir sérstök ábyrgðarsöfn áður en viðkomandi höfuðsafn sendir tillögu þar að lútandi til ráðherra.
    Ástæða er til að efla þau söfn sem hafa burði til að vera leiðandi í safnastarfi og geta verið öðrum söfnum, safnvísum, setrum og sýningum til ráðgjafar og aðstoðar. Með slíku fyrirkomulagi væri þjónusta og aðstoð við önnur söfn, safnvísa, setur og sýningar (sbr. 5. gr.) færð nær vettvangi eða heim í hérað. Þannig væri slíkum rekstrareiningum gert kleift að leggja sitt af mörkum til menningarstarfs þó að þær uppfylli ekki skilyrði III. kafla laganna til að fá viðurkenningu sem söfn.
    Reynslan hefur sýnt að sterk söfn draga til sín atvinnutækifæri í heimabyggð og geta verið vettvangur frjósamra samskipta og samstarfs.

Um 5. gr.

    Hér er leitast við að skilgreina safnvísa, setur og sýningar, en ekki hefur verið fjallað um slíka starfsemi í lögum áður og því hefur verið óljóst hver staða þeirra er í safnastarfi.
    Mjög stóran hluta þeirra stofnana í landinu sem stunda safntengda starfsemi ber fremur að telja til safnvísa en eiginlegra safna. Í 2. mgr. er að finna skilgreiningu á safnvísi, en þar segir að safnvísir starfi að nokkru leyti sem safn en uppfylli ekki öll skilyrði laganna um slíkar stofnanir, m.a. með tilliti til rekstrarforms og umfangs starfseminnar. Þá sinna safnvísar ekki öllum þeim þáttum sem safni ber samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaráðs safna (ICOM) og kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. eru setur skilgreind þannig að þau sinni ekki söfnun og varðveislu þótt um rannsóknir og miðlun geti verið að ræða. Setur vinna oft með efni sem byggist á menningar- eða náttúruarfi, en bera ekki ábyrgð á varðveislu minja á sama hátt og söfn.
    Í 4. mgr. segir að sýning sé sjálfstæð rekstrareining sem sinni fyrst og fremst miðlun en ekki söfnun, varðveislu og rannsóknum. Sýning getur einnig verið hluti af starfsemi safns eða seturs, þó hún sé staðsett utan viðkomandi safns eða seturs.
    Skilgreiningar þessarar greinar á setri og sýningu eru efnislega byggðar á skilgreiningum í Safnastefnu á sviði þjóðminjavörslu fyrir árin 2003–2008. Tekið skal fram að ákvæði í lagafrumvarpi þessu sem lúta að setrum, safnvísum og sýningum byggjast á eðli starfsemi þessara rekstrareininga en ekki heitum þeirra.

Um 6. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu er lagt til að skipulag safnamála verði með líkum hætti og er í gildandi lögum. Við það er miðað að ráðherra fari með stjórnsýslu málaflokksins en safnaráð mun eins og hingað til vera sérstakt ráð eða stjórnsýslunefnd undir ráðherra sem fengin eru tiltekin verkefni eins og nánar er lýst í einstökum ákvæðum frumvarpsins. Ráðinu er þannig ætlað að veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum ráðgjöf um málefni safna og koma að undirbúningi ákvarðana ráðherra í einstökum málum, sbr. ákvæði 7. gr.

Um 7. gr.

    Í greininni er kveðið á um skipan safnaráðs. Breytingar eru gerðar á skipan ráðsins frá því sem er í gildandi lögum með því að í frumvarpinu er lagt til að Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) tilnefni einn fulltrúa, auk þess sem Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag íslenskra safna og safnmanna tilnefna áfram hvort sinn fulltrúann. Lagt er til að ráðherra skipi tvo fulltrúa án tilnefningar og skal annar þeirra jafnframt vera formaður ráðsins. Einnig er bætt við að ekki sé heimilt að skipa sama mann aðalmann í safnaráð lengur en tvö samfelld starfstímabil og er það í samræmi við það sem almennt gildir nú um stjórnir og ráð á verksviði ráðuneytis.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hlutverk safnaráðs sem er m.a. að hafa eftirlit með safnastarfsemi í landinu og vinna að stefnumörkun um safnastarf í samvinnu við höfuðsöfn, en það er eðlilegt hlutverk safnaráðs að vinna að stefnumótun safnastarfs í landinu og eflingu faglegs starfs safna. Mikilvægt er að ráðherra er ætlað að samþykkja þessa stefnumörkun enda er hún hluti af heildarstefnu ríkisins í menningarmálum. Meðal annarra verkefna ráðsins er að fjalla um stofnskrár safna og gera tillögu um staðfestingu þeirra, fjalla um tillögur um viðurkenningu safna og afturköllun viðurkenningar þeirra áður en þær eru sendar ráðherra. Ráðinu er ætlað að fjalla um skilmála og staðla um húsnæði safna og viðurkenningu skráningarkerfa, en það er nýmæli að sett séu í lög ákvæði til grundvallar skilmálum um húsnæði safna og viðurkenningu skráningarkerfa. Þá skal safnaráð fjalla um ráðstöfun og förgun safngripa og leggja mat á þörf fagsviðs eða landsvæðis fyrir sérstakt ábyrgðarsafn og fjalla um tillögur þar að lútandi áður en þær eru sendar ráðherra til ákvörðunar. Þá setur safnaráð safnasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir og veitir umsögn um styrkumsóknir úr sjóðnum. Skal í úthlutunarreglum m.a. kveðið á um skilmála úthlutunar og skyldur þeirra sem fá fjárframlög úr sjóðnum.
    Verksvið safnaráðs samkvæmt þessu frumvarpi er nokkuð breytt frá eldri lögum en það getur m.a. einnig sinnt verkefnum sem ráðherra felur því samkvæmt nánari ákvörðun.
    Í 3. mgr. segir að forstöðumenn höfuðsafnanna þriggja, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands, sitji fundi safnaráðs stöðu sinnar vegna og er það gert til að tryggja eðlilegt samráð allra þessara aðila um málefni safna. Þetta ákvæði tryggir forstöðumönnum höfuðsafnanna hliðstæða stöðu gagnvart safnaráði og forstöðumönnum Þjóðminjasafns og Minjastofnunar Íslands er ætlað gagnvart forminjanefnd og húsafriðunarnefnd samkvæmt frumvarpi til laga um menningarminjar.
    Í 4. mgr. segir að ráðherra ákveði hvar safnaráð hefur aðsetur.
    Að lokum er lagt til að kostnaður af starfsemi safnaráðs verði greiddur úr safnasjóði og er samhljóða ákvæði að finna í 10. gr. gildandi safnalaga.

Um 8. gr.

    Samkvæmt þessari grein eru höfuðsöfnin þrjú, þ.e. Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Listasafn Íslands er höfuðsafn á sviði myndlistar og hefur það hlutverk að varpa ljósi á íslenska myndlist, sögu hennar og tengsl við myndlist annarra landa; Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða og hefur það hlutverk að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi; Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði menningarminja og hefur það hlutverk að varpa ljósi á íslenska menningu, sögu hennar og tengsl við menningarsögu umheimsins. Í greininni er lögð áhersla á það hlutverk höfuðsafna að vera ráðgefandi og stefnumótandi afl og vinna að samræmdri safnastefnu hvert á sínu sérsviði. Fjallað er nánar um höfuðsafni í sérlögum.
    Í 2. mgr. kemur fram skylda höfuðsafna til að vera leiðandi í málefnum safna á sínu sviði, m.a. í faglegu samstarfi og endurmenntun starfsfólks. Þá skulu höfuðsöfn láta sérstaklega til sín taka við kynningu á sínu sérsviði innan lands og utan.
    Í 4. mgr. segir að safnkostur höfuðsafna skuli vera undirstaða fræðslu- og sýningarstarfs þeirra. Einnig er lögð áhersla á að hann sé aðgengilegur öllum fræðimönnum, innan safns og utan, til rannsókna eftir þörfum. Í þessu samhengi er rétt að benda á að vísindasöfn Náttúrufræðistofnunar Íslands eru ásamt safnkosti Náttúruminjasafns Íslands undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsókna þess skv. 3. gr. laga um safnið.
    Í síðustu málsgrein, sem er samhljóða fyrri hluta 6. gr. safnalaga, nr. 106/2001, er kveðið á um að höfuðsöfn megi ekki taka við gjöfum sem kvaðir fylgja nema með sérstöku leyfi ráðherra. Með þessu er unnið gegn því að utanaðkomandi aðilar geti haft áhrif á áherslur í söfnun, sýningum og annarri starfsemi höfuðsafna með gjöfum. Um móttöku gjafa og leyfi ráðherra ber að fara eftir 36. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, en þar er svo fyrir mælt að ákveði ríkisaðili í A-hluta að þiggja gjöf sem gefin sé með kvöðum eða skilyrðum sem óhjákvæmilega hafi í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð beri að taka við gjöfinni með fyrirvara um samþykki Alþingis, enda hafi ekki verið gert ráð fyrir útgjöldum þessum í fjárlögum.

Um 9. gr.

    Greinin fjallar um viðurkenningu ráðherra á söfnum og er slík formleg viðurkenning safna nýmæli. Í viðurkenningu ráðherra felst opinber staðfesting á að fyrirkomulag og starfsemi viðkomandi safns fullnægi faglegum kröfum. Safn sem hlýtur viðurkenningu ráðherra getur sótt um styrk úr safnasjóði skv. 22. gr. frumvarpsins.
    Safnaráð tekur við umsókn um viðurkenningu og skulu henni fylgja ítarlegar upplýsingar um safnið, starfssvið þess og rekstrarform, eignarhald, fjármögnun og árlegan rekstrarkostnað, stofnskrár eða samþykktir og upplýsingar um önnur þau skilyrði sem tilgreind eru í 10. gr. Safnaráð leggur skv. 7. gr. faglegt mat á umsóknir um viðurkenningu safna og gerir tillögu til ráðherra þar að lútandi.
    Samkvæmt 3. mgr. getur ráðherra afturkallað viðurkenningu ef safnaráð telur að skilyrðum hennar sé ekki lengur fullnægt. Þetta er einnig nýjung og vísar til þess hlutverks safnaráðs að hafa eftirlit með safnastarfsemi í landinu. Með þessu ákvæði er viðurkenndum söfnum veitt ákveðið aðhald, sem ekki hefur verið lögbundið áður.
    Í greininni er einnig kveðið á um að viðurkenningu safns fylgi réttur til að nota tiltekið einkennismerki, en slíku merki er ætlað að vera ákveðinn gæðastimpill og trygging fyrir að safnið sé faglega rekið. Sambærileg ákvæði eru m.a. í frönskum safnalögum þar sem strangar kröfur eru gerðar til safna sem hafa heimild til að kallast „musée de France“, en söfn geta tapað þeim titli uppfylli þau ekki lengur tilteknar kröfur.

Um 10. gr.

    Í greininni eru talin upp skilyrði þess að safn geti öðlast viðurkenningu. Þetta felur m.a. í sér að öll söfn sem hingað til hafa notið rekstrarstyrkja úr safnasjóði þurfa við gildistöku laganna að sækja um viðurkenningu og uppfylla þau skilyrði sem sett eru hér áður en safnaráð getur lagt til við ráðherra að þau öðlist viðurkenningu. Má vænta þess að mörg söfn þurfi nokkurn tíma til að tryggja að þau geti uppfyllt öll þau skilyrði sem hér eru talin og því er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða í þessi lög um að viðurkenning safna í samræmi við ákvæði eldri laga haldi gildi sínu í eitt ár frá gildistöku laganna; innan þess tíma má ætla að söfn geti gengið frá umsóknum um viðurkenningu í samræmi við kröfur sem settar eru í þessum lögum. Það er nýmæli í íslenskum lögum að opinber viðurkenning safna kalli á það formlega ferli sem hér er lýst, en hefur um nokkurt skeið verið almenn regla í nágrannalöndunum.
    Í 1. tölul. er kveðið á um með hvaða hætti eignarhald viðurkennds safns skuli vera og að það sé hlutverk eiganda þess að tryggja fjárhagsgrundvöll fyrir eðlilega starfsemi safnsins. Eigandi skal einnig skipa safninu sérstaka stjórn. Loks er tekið fram að viðurkennt safn, sem getur skv. 9. gr. sótt um styrk úr safnasjóði, skuli ekki rekið í hagnaðarskyni fyrir eiganda þess. Með þessu ákvæði er lögð áhersla á að almennur rekstur hvers safns sé á ábyrgð eiganda þess, en eigi ekki að skila honum arði, enda er slíkt andstætt siðareglum Alþjóðaráðs safna (ICOM), sem vísað er til í 7. tölul. Söfn í einkaeigu sem er ætlað að skila hagnaði til eiganda geta því ekki fengið viðurkenningu eða notið styrkja úr safnasjóði.
    Í 2. tölul. kemur fram að safn skuli hafa sjálfstæðan fjárhag sem er aðskilinn frá öðrum rekstri eiganda. Þetta ákvæði gildir einnig um söfn í eigu sveitarfélaga, en borið hefur á því að reikningshald safna hafi ekki verið aðgreint sérstaklega í reikningshaldi þeirra og því er ítrekað að það verði gert. Þá skulu reikningar safns áritaðir af löggiltum endurskoðanda til að tryggja að fjárhagslegt uppgjör sé með réttum hætti. Loks segir í þessum lið að safn skuli árlega senda safnaráði skýrslu um starfsemi sína og fjárhagslegt uppgjör, þ.e. ársreikninga; er þess krafist til að safnaráð geti haft sem besta yfirsýn yfir starfsemi safna í landinu.
    Í 3. tölul. er kveðið á um að safnið skuli starfa eftir stofnskrá eða samþykkt sem er staðfest af safnaráði. Þá segir að í stofnskrá skuli m.a. tilgreina viðfangsefni safnsins, þ.e. að hverju því er ætlað að starfa, og hvert starfssvæði þess skuli vera. Er talið eðlilegt að slíkar upplýsingar komi fram í stofnskrá eða samþykkt m.a. til að hægt sé að greina mögulega skörun ætlaðra starfssvæða og viðfangsefna safna og meta t.d. hvort sameining safna á grundvelli sameiginlegra verkefna eða samliggjandi starfssvæða geti verið fýsilegur kostur. Þá geta slíkar upplýsingar orðið grundvöllur þess að hafna ósk um viðurkenningu á nýju safni, sé áður til viðurkennt safn á sama verksviði á sama starfssvæði. Stofnskrá eða samþykkt safns sem hlotið hefur viðurkenningu skal birt í B-deild Stjórnartíðinda og er það nýmæli; tilgangurinn er að skerpa á mikilvægi stofnskrár eða samþykktar safns sem grundvelli fyrir starfsemi þess og tryggja þannig sem best að söfn séu varanlegar stofnanir með skýran starfsgrundvöll.
    Þá segir í 4. tölul. að safn skuli starfa í samræmi við skilmála safnaráðs, m.a. um húsnæði, öryggismál, skráningarkerfi safnmuna og faglega starfsemi. Er þessu ákvæði ætlað að tryggja samræmi í starfsemi safna og sem jafnasta stöðu þeirra í milli hvað varðar ytri aðstæður og starfshætti. Einnig segir hér að upplýsingar um skráða gripi í varðveislu safns skuli vera aðgengilegar almenningi; er þetta eðlileg krafa í ljósi þess að viðurkennt safn nýtur styrks af almannafé til starfsemi sinnar.
    Ríkissöfn og söfn sem rekin eru af fjölmennustu sveitarfélögunum taka nú þegar á móti nemendum án gjaldtöku þegar um námsferðir er að ræða. Í 5. tölul. er sú skylda lögð á viðurkennt safn að það veiti skólanemendum sem heimsækja það vegna náms aðgang án gjaldtöku. Hér er áréttuð sú skylda allra viðurkenndra safna að taka á móti skólanemendum, einnig úr öðrum sveitarfélögum sé um heimsóknir á vegum skóla að ræða. Ákvæðið er einnig sett með tilvísun til þess að safnið njóti styrks af almannafé og beri því skylda til að þjóna menntunar- og fræðsluhlutverki í samfélaginu eftir því sem við verður komið, m.a. með þessum hætti.
    6. tölul. fjallar um aðgengismál og vísar til skyldu viðurkennds safns til að uppfylla skilyrði laga og byggingarreglugerða um aðgengi fólks með fötlun. Á því sviði er víða pottur brotinn og full ástæða til að söfn sem njóta opinberra styrkja séu til fyrirmyndar á þessu sviði.
    Í 7. tölul. er mælt fyrir um að safn skuli starfa í samræmi við siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) og ákvæði laga sem við eiga; þannig eru m.a. ýmis frekari ákvæði er varða starfsemi safna í þessum lögum (t.d. í V. kafla) sem og í öðrum lögum (svo sem höfundalögum o.fl.). Þetta er skýrara ákvæði en í gildandi safnalögum.
    Loks er í 8. tölul. kveðið á um að forstöðumaður viðurkennds safns skuli hafa menntun á ábyrgðarsviði safnsins eða hafa aflað sér hliðstæðrar hæfni á annan hátt. Þannig er gert ráð fyrir að einnig megi taka tillit til reynslu viðkomandi uppfylli hann ekki skilyrði um formlega menntun.

Um 11. gr.

    Þessi grein fjallar um mögulegan fjárhagslegan stuðning ríkisins við stofnkostnað viðurkenndra safna, þ.m.t. öflun húsnæðis. Mælt er fyrir um að safnaráð setji skilmála um húsnæði safna sem m.a. kveði á um öryggi og varðveislu safnkostsins. Viðurkennd söfn þurfa að fylgja þessum skilmálum til að styrkur komi til álita. Af 6. gr. frumvarpsins leiðir að samningar sem gerðir verða á grundvelli þessa ákvæði eru gerðir við ráðuneyti.
    Ákvæði um stofnstyrk er að finna í 11. gr. safnalaga, nr. 106/2001, og hefur ákveðinn liður fjárlaga verið ætlaður til að greiða fyrir samninga um stofnstyrki á grundvelli þess ákvæðis. Það er nýmæli í frumvarpi þessu að setja skuli almenna skilmála um húsnæði safna, m.a. hvað varðar öryggisþætti þeirra. Kostnaður vegna slíkra þátta er oft stór liður í stofnkostnaði lítilla safna en miklir hagsmunir eru í húfi við að tryggja sem best öryggi menningarverðmæta, og því er lagt til að stofnstyrkur geti náð til þeirra. Safnaráði er skv. 7. gr. ætlað að ákveða þá skilmála sem settir verða um húsnæði safna, þar á meðal um aðgengi og öryggismál þeirra. Af þessu er ljóst að viðunandi öryggiskerfi þurfa að vera hluti af umgjörð um starfsemi safna ef þau vilja sækja um stofnstyrk til ríkisins samkvæmt þessari grein.
    Mikilvægt er að undirstrika nauðsyn þess að samningur um framlag ríkisins til stofnkostnaðar við húsnæði safns sé gerður áður en framkvæmdir hefjast eða kaupsamningur gerður eins og fram kemur í 2. mgr. til að það sé ljóst að umræddar framkvæmdir eða húsnæðiskaup uppfylli þá skilmála sem safnaráð setur um húsnæði safna. Til áherslu þessu ákvæði er lagt til að tekið sé fram í sjálfum lagatextanum að sé þessum formlegu kröfum ekki fylgt eigi safnið ekki möguleika á stofnstyrk úr ríkissjóði í samræmi við ákvæði greinarinnar.
    Þá er einnig það nýmæli í 3. mgr. að fyrir undirritun samnings um framlag ríkisins til húsnæðis skal viðkomandi safn leggja fram staðfestingu þess að annar stofnkostnaður sé tryggður; er þetta gert til að fyrir liggi staðfesting á heildarfjármögnun stofnkostnaðar vegna viðkomandi húsnæðis.
    Loks kemur fram að svigrúm til að ganga til samninga við viðurkennd söfn um stofnstyrki vegna húsnæðisöflunar markast af þeim fjárveitingum sem til þess eru ætlaðar samkvæmt fjárlögum hverju sinni.

Um 12. gr.

    Í greininni felst nýmæli. Þar segir að í stofnskrá eða samþykkt viðurkennds safns skuli gerð sérstök grein fyrir ráðstöfun eigna þess og safnkosts ef það verður lagt niður eða rekstrarformi þess breytt. Þar skuli vera ákvæði sem tryggi að viðkomandi höfuðsafn ákveði ráðstöfun safnkosts í samráði við eigendur safnsins. Þá skuli einnig koma fram að öðrum eigum þess, svo sem húsnæði, öryggiskerfum og öðrum búnaði, skuli ráðstafað að höfðu samráði við ráðuneyti.
    Sambærileg ákvæði eru m.a. í finnskum safnalögum. Opinberri viðurkenningu og fjárhagslegum stuðningi úr opinberum sjóðum fylgir ábyrgð og því er talið nauðsynlegt að ráðherra, sem fer skv. 6. gr. með yfirstjórn málefna safna sem þessi lög ná til, eigi kost á að tryggja að safnkostur tvístrist ekki eða verði t.d. ráðstafað með öðrum hætti en til safnrekstrar ef safn hættir starfsemi sinni. Það er eðlilegt að fela höfuðsöfnum það hlutverk sem hér um ræðir og snýr að safneign og að samráð sé haft við ráðuneytið um ráðstöfun annarra eigna, enda hafi safnið notið opinberra styrkja vegna starfsemi sinnar og því eðlilegt að ráðuneytið taki þátt í ákvörðun um ráðstöfun annarra eigna en safngripa.

Um 13. gr.

    Í greininni felst nýmæli. Þar segir að ráðherra geti, að fenginni tillögu viðkomandi höfuðsafns, falið viðurkenndu safni að bera ábyrgð á ákveðnum þáttum safnastarfs í landinu. Sem fyrr segir leggur safnaráð skv. 7. gr. faglegt mat á þörf fagsviða eða landsvæða fyrir sérstök ábyrgðarsöfn áður en höfuðsafn sendir tillögu þar að lútandi til ráðherra.
    Ástæða er til að efla þau söfn sem hafa burði til þess að vera leiðandi í safnastarfi og geta verið öðrum söfnum til ráðgjafar og aðstoðar. Með því er fagleg þjónusta við önnur söfn, safnvísa, setur og sýningar færð nær vettvangi en ella eða heim í hérað. Þannig kann ýmsum aðilum, svo sem öðrum söfnum, safnvísum, setrum og sýningum, að vera gert kleift að leggja meira af mörkum til menningarstarfs en nú þó að þau uppfylli ekki skilyrði III. kafla til að fá viðurkenningu sem söfn eða óski ekki eftir slíkri viðurkenningu. Reynslan hefur jafnframt sýnt að sterk söfn draga til sín atvinnutækifæri í heimabyggð og eru vettvangur frjósamra samskipta og samstarfs í samfélaginu.
    Í 2. mgr. kemur skýrt fram að ábyrgðarsafn skal starfa í nánu samráði við viðkomandi höfuðsafn eða höfuðsöfn, enda eru það höfuðsafni sem fela ábyrgðarsöfnum hlutverk sitt. Gott samstarf þessara safna er forsenda þess að þau geti gegnt hlutverki sínu í þjónustu við önnur söfn og allan almenning á verðugan hátt.
    Í 3. mgr. er tiltekið að það sé verkefni ábyrgðarsafns að veita öðrum söfnum, safnvísum, setrum og sýningum ráðgjöf og leiðbeiningar til að efla þekkingu og færni þeirra sem sinna safnastarfi heima í héraði. Því verkefni skal lýst nánar í þeim samningi, sem vísað er til í 5. mgr.
    Í 4. mgr. er fjallað um menntunar- og hæfniskröfur forstöðumanns ábyrgðarsafns auk lágmark starfsmannahalds þess. Af þessu ákvæði er ljóst að ábyrgðarsafn þarf að uppfylla frekari skilyrði en almennt viðurkennt safn, m.a. hvað varðar menntun forstöðumanns og fjölda starfsfólks.
    Gert er ráð fyrir að í hverju tilviki verði nánar kveðið á um hlutverk ábyrgðarsafns, verkefni þess og þær fjárveitingar sem hlutverkinu fylgja í sérstökum samningi þar að lútandi sem gerður verður milli ráðuneytis, hlutaðeigandi safns og viðkomandi höfuðsafns. Höfuðsafn skal hafa forustu um að gera slíkan samning, enda hefur það gert tillögu til ráðherra um að fela viðkomandi safni þetta hlutverk. Í ákvæðinu kemur einnig fram að slíkur samningur um stöðu ábyrgðarsafns skal vera tímabundinn, enda eðlilegt að árangurinn af slíku hlutverki viðurkennds safns sé metinn í lok samningstíma og samningurinn endurskoðaður eftir því sem þurfa þykir.

Um 14. gr.

    Í greininni er almenn starfsemi viðurkenndra safna skilgreind út frá því hlutverki þeirra sem hefur verið lýst í 3. gr. Lögð er áhersla á þjónustuhlutverk þeirra í íslensku samfélagi, hvaða þættir skuli marka starfsemi þeirra og vera leiðarljós hennar, þ.e. að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda. Er þetta í samræmi við þær lýsingar sem koma fram í siðareglum Alþjóðaráðs safna (ICOM) og fjallað hefur verið um í athugasemd við 3. gr.
    Í 2. mgr. er lögð áhersla á að starfsemi safna byggi á faglegum grunni og standist lágmarkskröfur á öllum sviðum safnastarfs. Einnig segir hér að þau skuli skila stefnumörkun um starfsemi sína til viðeigandi höfuðsafns á fjögurra ára fresti og er það gert til að höfuðsafni séu sem best upplýst um starfsemi safna á sínu sviði og geti byggt ráðgjöf sína og þjónustu við söfnin á grundvelli réttra upplýsinga.
    Loks er sérstaklega hvatt til samstarfs safna innan svæða, á landsvísu og á alþjóðavettvangi eftir því sem við verður komið og má í því sambandi m.a. vísa til þeirra möguleika á styrkjum safnasjóðs sem fjallað er um í 21. og 22. gr.

Um 15. gr.

    Greinin veitir söfnum heimild til að lána tímabundið gripi eða verk úr safnkosti sínum til annarra safna eða stofnana, á sýningar eða til rannsókna. Þá kemur fram að lán safngripa til annarra landa kunna að vera háð ákvæðum laga um menningarminjar, þar sem þau eiga við. Einnig er kveðið á um að höfundur eigi alltaf rétt á að fá verk sín lánuð á eigin sýningar og lýtur það ákvæði einkum að listasöfnum.
    Þá er fjallað um að tryggilega skuli gengið frá varðveislu gripa sem eru lánaðir og þeir tryggðir eftir því sem forstöðumaður viðkomandi safns ákveður. Með viðkomandi safni er átt við það safn sem lánar gripinn tímabundið.
    Greinin er efnislega samhljóða 7. gr. safnalaga, nr. 106/2001. Þar var heimild til útlána takmörkuð við sýningar en nær hér einnig til rannsókna sem er nýmæli. Hér er átt við gripi sem þegar eru skráðir í safnskrá viðkomandi safns. Hafi gripir eða sýni ekki verið færð inn í aðfangaskrár safna nær þetta ákvæði ekki til flutnings þeirra til annarra landa. Um slíka flutninga er fjallað í lögum um menningarminjar.
    Loks er áréttað að fagleg og örugg meðhöndlun lánaðra safngripa skuli ætíð tryggð og að þeir skuli tryggðir á kostnað þess sem fær þá lánaða ákveði forstöðumaður safnsins það.
    Rétt er að vekja athygli á að ákvæði þessarar greinar breyta engu um skyldur eigenda vegna réttar höfunda samkvæmt höfundalögum.

Um 16. gr.

    Þessi grein kveður á um að ráðstöfun safnkosts (t.d. með gjöf, skiptum eða sölu) skuli vera í samræmi við ákvæði í stofnskrá eða samþykkt safnsins og í samráði við viðkomandi höfuðsafn. Jafnframt skal óheimilt að taka af safnskrá muni sem viðurkennt safn hefur fengið að gjöf eða með arfleiðslu eða sem keyptir hafa verið fyrir almannafé.
    Þetta er nýmæli í íslenskum lögum. Algengt er erlendis að söfn skiptist á gripum, ef slíkt má verða til að safnkostur viðkomandi safna verði heildstæðari, og einnig er æskilegt að gera ráð fyrir að söfn geti grisjað safnkost með því að losa sig við aukaeintök eða gripi sem betur ættu heima á öðrum söfnum. Slíkar ráðstafanir hafa einnig tíðkast á Íslandi án þess þó að fjallað hafi verið um þær í lögum. Aðhald á þessu sviði er tryggt með því að samráð þarf að hafa við viðkomandi höfuðsafn áður en safnkosti eða munum er ráðstafað.

Um 17. gr.

    Gert er ráð fyrir því að höfuðsöfn semji sérstakar áætlanir um heimildir til grisjunar á safnkosti safna á málefnasviði þeirra. Komi upp álitamál um förgun safngripa vegna ástands þeirra er gert ráð fyrir því að hlutaðeigandi höfuðsafn taki ákvörðun að fenginni umsögn safnaráðs.
    Ákvæðið felur í sér nýmæli, en talið er nauðsynlegt að gera ráð fyrir því að söfn þurfi í undantekningartilvikum að farga gripum sem eru ónýtir og ekki er unnt að gera við. Mikilvægt er að söfn geti grisjað safneign sína ef nauðsyn þykir með ábyrgum hætti í samræmi við siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM), t.d. samkvæmt sérstakri grisjunaráætlun.

Um 18. gr.

    Þessi grein mælir fyrir um að ekki megi nota myndir af gripum eða verkum safna sem vörumerki eða í auglýsingaskyni eða gera myndir eða eftirlíkingar af þeim í heimildarleysi. Sambærilegt ákvæði er í 8. gr. safnalaga, nr. 106/2001, en nær nú til allra safna í stað höfuðsafna einvörðungu. Þessu ákvæði er ætlað að vinna á móti misnotkun safngripa og veita söfnum möguleika á ákveðinni tekjuöflun.

Um 19. gr.

    Í greininni er söfnum í eigu ríkisins veitt heimild til að taka aðgangseyri og einnig gjöld til að mæta kostnaði við ýmsa þjónustu, svo sem lán á munum, ljósmyndun og afritun ljósmynda, sérunnar munaskrár, úttök skráa og annarra tölvugagna, heimildaþjónustu o.fl.
    Ekki hafa áður verið ákvæði í lögum sem ótvírætt heimila slíka gjaldtöku og er brýnt að úr því sé bætt. Auk heimildar til að taka aðgangseyri er um að ræða heimild til töku þjónustugjalda fyrir veitta þjónustu. Í því felst að hámark gjaldsins ræðst af kostnaði þeirrar þjónustu sem veitt er. Söfn skulu setja gjaldskrá um kostnað við slíka þjónustu og birta hana.
    Ákvörðun um gjaldtöku safna í eigu annarra aðila en ríkisins sem þessi lög ná til er á valdi eigenda þeirra.

Um 20. gr.

    Greinin, sem fjallar um að gjafir og fjárframlög til safna séu frádráttarbær til skatts, er efnislega samhljóða 2. mgr. 6. gr. safnalaga, nr. 106/2001. Skattfrelsi á gjafir og fjárframlög er til þess fallið að hvetja til stuðnings við starfsemi safna og þarfnast greinin ekki frekari skýringa.

Um 21. gr.

    Hér er hlutverk safnasjóðs skilgreint, svo og tekjustofnar sjóðsins. Sjóðnum er ætlað að styrkja rekstur og skilgreind verkefni viðurkenndra safna og möguleg samstarfsverkefni þeirra innbyrðis eða við aðra aðila.
    Þá er nýmæli að gert er ráð fyrir að sjóðurinn geti styrkt annars konar starfsemi sem miðar að því að efla faglegt safnastarf. Til slíkrar starfsemi mætti telja farskóla safnamanna, starfsemi Íslandsdeildar ICOM og annarra fagfélaga og innlendar og alþjóðlegar ráðstefnur safna. Sjóðnum er einnig heimilt að stuðla að rannsóknum á verksviði sjóðsins, hvort sem slíkar rannsóknir eru á vegum einstakra safna eða á vegum fræðimanna. Loks getur sjóðurinn veitt styrki til að miðla upplýsingum um slíkar rannsóknir.
    Í 2. mgr. segir að heimilt sé að verja allt að 40% af ráðstöfunarfé sjóðsins í styrki til að efla rekstur viðurkenndra safna. Í 10. gr. segir að fjárhagsgrundvöllur viðurkenndra safna skuli vera tryggður af eigendum þeirra og þannig er lögð áhersla á að rekstur safna sé á ábyrgð eigenda. Því ber að líta á rekstrarstyrki sem veittir verða samkvæmt þessari heimild sem viðbót við rekstrarfé umræddra safna, fé sem er ætlað að efla starfsemi þeirra, en er ekki hluti af nauðsynlegum rekstrargrunni þeirra.
    Rekstrarstyrkir ríkisins til safna sem ekki eru í eigu ríkisins eiga sér nokkra sögu. Þeir voru fyrst leiddir í lög með lögum nr. 8/1947, um viðhald fornra mannvirkja og um byggðasöfn. Í þjóðminjalögum, nr. 52/1969, var enn frekar hnykkt á þessu atriði og mælt fyrir um að rekstrarstyrkur skyldi miðast við hálf laun gæslumanns. Í þjóðminjalögum, nr. 88/1989, segir að þau söfn sem uppfylli skilyrði þjóðminjaráðs geti sótt um styrk úr ríkissjóði til starfsemi sinnar. Loks er í gildandi safnalögum, nr. 106/2001, kveðið á um að söfn geti sótt um verkefnastyrki til safnasjóðs, sem stofnaður var með lögunum, auk rekstrarstyrks að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
    Í 10. gr. gildandi safnalaga eru engin ákvæði um gæðakröfur sem skilyrði fyrir veitingu verkefnastyrkja eða rekstrarframlaga, en í þessu frumvarpi eru skilyrði sem safn þarf að uppfylla til að öðlast viðurkenningu sett fram í 10. gr.
    Með ákvæðinu um að slíkir rekstrarstyrki geti samtals ekki orðið hærri en sem nemur 40% af ráðstöfunarfé sjóðsins (en geti einnig verið lægra hlutfall) er ítrekað að hlutverk sjóðsins er fyrst og fremst að veita styrki til skilgreindra verkefna.
    Tekjustofnar safnasjóðs eru framlag ríkissjóðs og önnur framlög.

Um 22. gr.

    Úthlutanir úr safnasjóði eru samkvæmt reglum sem safnaráð setur og ráðherra staðfestir skv. i-lið 2. mgr. 7. gr.
    Í greininni segir að söfn sem rekin eru af ríkinu geti ekki sótt um rekstrarstyrk til safnasjóðs.
    Öll viðurkennd söfn sem falla undir þessi lög geta hins vegar sótt um verkefnastyrki til safnasjóðs þar með talin söfn í eigu ríkisins önnur en höfuðsöfn.
    Nýmæli er að nú er fest í lög skv. 4. mgr. að önnur söfn, setur, safnvísar og sýningar geti átt aðgang að fé úr sjóðnum í gegnum samstarf við viðurkennd söfn um ákveðin verkefni og er sú breyting í samræmi við þróun í safna- og sýningarstarfi um land allt. Höfuðsöfn og önnur söfn sem rekin eru af ríkinu geta einnig átt aðild að slíku samstarfi. Sú skylda er lögð á herðar viðurkenndum söfnum í slíku samstarfi að þau beri ábyrgð á þessum verkefnum og ábyrgist gagnvart sjóðnum að allir samstarfsaðilar vinni samkvæmt ákveðnum faglegum gæðakröfum.
    Þá er í 5. mgr. kveðið á um möguleika sjóðsins til að styrkja fjölþjóðleg og alþjóðleg samstarfsverkefni á sviði safnamála.
    Í 6. mgr. er að finna heimild til að krefjast endurgreiðslu verkefnastyrks hafi verkefni ekki verið unnið í samræmi við umsókn eða skilmála sjóðsins eða ef misbrestur er á skilum lokaskýrslu. Þetta nýmæli er í eðlilegu samræmi við auknar kröfur til safna vegna styrkhæfis og um aukið eftirlit með nýtingu almannafjár; þá er þessi heimild til þess fallin að veita styrkþegum ákveðið aðhald. Svipað ákvæði er í gildandi úthlutunarreglum safnasjóðs, en hér er lagt til að það verði lögfest.
    Loks er kveðið á um að ráðherra ákveði styrkveitingar úr safnasjóði.

Um 23. og 24. gr.

    Hér er að finna ákvæði sem lúta að heimild ráðherra til að setja reglugerðir og um gildistöku laganna. Þau ákvæði þarfnast ekki frekari skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í síðustu málsgrein segir að viðurkenning safna í samræmi við ákvæði eldri laga haldi gildi sínu í eitt ár frá gildistöku þessara laga. Er talið nauðsynlegt að söfn fái þann tíma til að endurnýja samþykktir sínar og stofnskrár og sækja um viðurkenningu í samræmi við hin nýju lög. Búast má við að ýmis ákvæði þeirra kalli á breytingar á viðkomandi samþykktum og stofnskrám og búast má við að það ferli taki nokkurn tíma.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til safnalaga.

    Tilgangur frumvarpsins er einkum sá að efla starfsemi safna og færa hana í fastari skorður, leiða til þess að fjárveitingar ríkisins til safna stuðli að faglegu samstarfi þeirra, auka á gæði starfseminnar og bæta aðgengi almennings að þeim. Frumvarpið tekur til safna í eigu ríkisins og til safna í eigu annarra aðila sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur viðurkennt. Við gerð frumvarpsins var m.a. höfð hliðsjón af ábendingum frá Ríkisendurskoðun sem fram komu í skýrslunni Íslensk muna- og minjasöfn: Meðferð og nýting á ríkisfé, sem gerð var fyrir Alþingi í maí 2009. Þar var m.a. lagt til að auka á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins í safnamálum en til þess þyrfti að gera breytingar á reglum og eftirliti vegna styrkveitinga til safna.
    Helstu nýmæli í frumvarpinu og ákvæði sem gætu haft áhrif á útgjöld ríkisins eru eftirfarandi. Í fyrsta lagi eru gerðar breytingar á skipan og verkefnum safnaráðs. Gert er ráð fyrir að fulltrúum í ráðinu verði fjölgað um tvo og að þeir verði sjö í stað fimm áður. Á verksviði ráðsins eru þær breytingar gerðar að í stað þess að vera fyrst og fremst ráðgefandi nefnd gagnvart ráðherra er því nú ætluð aukin stjórnsýsluverkefni, svo sem eftirlit með safnastarfsemi í landinu, auk verkefna sem ráðherra felur því samkvæmt frekari ákvörðun. Á móti verða önnur verkefni, svo sem útflutningur menningarminja, flutt til nýrrar Minjastofnunar samkvæmt frumvarpi til laga um menningarminjar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra taki ákvarðanir um einstakar úthlutanir úr safnasjóði á grundvelli tillagna safnaráðs og samkvæmt úthlutunarreglum sem hann staðfestir fremur en að safnaráð sem sjálfstæð stjórn fari með það ákvörðunarvald eins og kveðið er á um í gildandi safnalögum og algengt er með sjóði af þessari stærðargráðu. Ekki eru forsendur til að meta hvort breytingarnar leiði til aukningar útgjalda fyrir safnaráð en kostnaður vegna þess hefur verið greiddur úr safnasjóði. Komi til aukinna útgjalda safnaráðs mun það leiða til þess að minni fjármunir verða til annarra verkefna sjóðsins.
    Í öðru lagi er lagt til að söfn sem uppfylla tiltekin skilyrði geti hlotið viðurkenningu ráðherra. Í viðurkenningunni felst opinber staðfesting á að fyrirkomulag og starfsemi viðkomandi safns fullnægi faglegum kröfum. Ítarlegar kröfur eru gerðar til að fá viðurkenningu, svo sem að safnið skuli starfa í þágu almennings, það sé ekki rekið í hagnaðarskyni og að í stofnskjali þess komi fram starfssvið eða starfssvæði þess. Þá þarf að gera sérstaka grein fyrir ráðstöfun eigna og safnkosts ef það verði lagt niður eða rekstri breytt. Safni sem hlýtur viðurkenningu ráðherra er heimilt að nota einkennismerki sem safnaráð gefur út og það getur sótt um rekstrar- og verkefnastyrki úr safnasjóði. Þá er í frumvarpinu skilgreint hvað telst vera safn, safnvísir, setur og sýningar, en ekki hefur verið fjallað um þessar skilgreiningar í lögum áður.
    Í þriðja lagi er lagt til í frumvarpinu að fellt verði niður ákvæði gildandi laga um að hámark stofnstyrkja vegna húsnæðis skuli vera þriðjungur af kostnaði. Nýmæli í frumvarpinu er að settar eru almennir skilmálar um húsnæði safna, m.a. hvað varðar öryggi og varðveislu safnkosts þeirra. Viðurkennd söfn þurfa að fylgja þessum skilmálum til að stofnstyrkur komi til álita og sækja þarf um styrk áður en framkvæmdir hefjast. Þá er einnig nýmæli að gert er ráð fyrir að leggja þurfi fram staðfestingu á að búið sé að tryggja fjármögnun á öðrum stofnkostnaði. Gert er ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðuneytið geri samningana en einungis er hægt að gera samninga um þær fjárveitingar sem Alþingi ákveður í fjárlögum hvers árs til slíkra stofnstyrkja . Þar sem fjárhagsgrunnur viðurkenndra safna skal vera tryggður af eigendum þeirra þá er styrkur úr safnasjóði aðeins viðbót við rekstrarfé til að efla starfsemi þeirra, en ekki hluti af nauðsynlegum rekstrargrunni.
    Í fjórða lagi eru lagðar til nokkrar breytingar og nýmæli sem varða safnasjóð og úthlutanir úr honum. Samkvæmt gildandi lögum geta öll söfn sem ekki eru rekin af ríkinu sótt um bæði verkefna- og rekstrarstyrki. Frumvarpið gerir ráð fyrir að heimilt verði að verja allt að 40% af ráðstöfunarfé sjóðsins í styrki til að efla rekstur viðurkenndra safna. Önnur söfn, safnvísar, setur og sýningar munu nú aðeins geta notið styrks úr honum í samstarfi við viðurkennd söfn. Viðurkennda safnið ber ábyrgð á verkefninu sem fær styrk. Frumvarpið gerir ráð fyrir að safnasjóður geti, auk hefðbundinna styrkja, styrkt annars konar starfsemi sem miðar að því að efla faglegt safnastarf, t.d. farskóla safnamanna, starfsemi Íslandsdeildar ICOM, ráðstefnur o.fl. Einnig er heimild til að stuðla að rannsóknum á verksviði sjóðsins og miðla upplýsingum um þær rannsóknir. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að hægt verði að krefjast endurgreiðslu á styrkjum til verkefna hafi þau ekki verið unnin í samræmi við umsókn eða skilmála sjóðsins og er þetta ákvæði í samræmi við auknar kröfur um eftirlit með nýtingu almannafjár. Breytingarnar varða eingöngu rýmri úthlutunarreglur sjóðsins en eru ekki skuldbinding um aukin útgjöld hans.
    Í fimmta lagi eru þau nýmæli í frumvarpinu að ráðherra geti falið viðurkenndum söfnum, sem hafa til þess burði, að vera ábyrgðarsöfn og leiða faglegt samstarf safna á tilteknu sviði eða landsvæði. Ábyrgðarsafn þarf að uppfylla frekari skilyrði en almennt viðurkennt safn, m.a. hvað varðar menntun forstöðumanns og fjölda starfsmanna. Um verkefni, ábyrgðarsvið og fjárveitingar skal fjalla í þríhliða samningi ábyrgðarsafns, höfuðsafns og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Heimildarákvæðið gæti gefið tilefni til aukinna ríkisútgjalda séu áform uppi um að fara í uppbyggingu ábyrgðarsafna. Hins vegar stuðlar slíkt að samræmingu í starfi safna og leiðir því til betri nýtingar þeirra fjármuna sem eru veittir til málefnisins.
    Í sjötta lagi er nú veitt skýr heimild fyrir söfn í eigu ríkisins til að taka aðgangseyri og einnig gjöld til að mæta kostnaði við ýmsa þjónustu. Ekki er talið að þetta heimildarákvæði gefi tilefni til aukinna tekna. Með þessu er verið að lögfesta heimild til tekjuöflunar með gjaldtöku sem lengi hefur verið við lýði hjá söfnum í eigu ríkisins.
    Breytingartillögur frumvarpsins varða úthlutunarreglur safnasjóðs og verkaskiptingu hjá safnaráði og söfnum ríkisins. Styrkveitingar til safnanna taka alltaf mið af fjárveitingum og því munu rýmri úthlutunarreglur í sjálfu sér ekki leiða til aukinna útgjalda. Frekar má búast við að verkefnum sem fá styrk á hverju ári fækki. Þá gæti fjölgun nefndarmanna safnaráðs og nýjar áherslur í verkefnum ráðsins og einstakra safna leitt til kostnaðarauka en á móti mun nýting fjármuna verða betri. Því verður ekki annað séð en að lögfesting frumvarpsins hafi óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs í för með sér, sem ættu þá að rúmast innan gildandi fjárheimilda mennta- og menningarmálaráðuneytis.